Hvað er átt við þegar talað er um frumtexta og marktexta?

Með frumtexta er átt við textann sem á að þýða og með marktexta er átt við textann á tungumálinu sem þýtt er yfir á.

Hvað er löggilt þýðing?

Löggilt þýðing er þýðing sem hefur verið unnin af löggiltum skjalaþýðanda. Til að öðlast löggildingu þurfa þýðendur að standast próf sem dómsmálaráðuneytið efnir til.

Hvenær þarf ég á löggiltri þýðingu að halda?

Löggildrar þýðingar er yfirleitt þörf þegar um er að ræða texta þar sem færa þarf sönnur á að þýðandi búi yfir nauðsynlegri færni til að þýða textann. Dæmi um þetta eru hjúskaparvottorð og dómsskjöl.

Hvar finn ég löggiltan þýðanda?

Á Íslandi er starfrækt Félag löggiltra dómtúlka og skjalaþýðenda og er slóðin á vefsíðu félagsins www.flds.is. Við hjá Skopos sjáum einnig um að finna löggilta skjalaþýðendur þegar þess er óskað.

Hver er munurinn á almennum þýðingum og sértækum þýðingum?

Með almennum þýðingum er átt við þýðingu texta þar sem ekki er þörf á sérþekkingu af hálfu þýðandans. Með sértækum þýðingum er átt við að þýðandinn þarf að hafa sérþekkingu á því efni sem er að þýða. Dæmi um sértæka þýðingu er þýðing á lyfjatexta eða notendaviðmóti stýrikerfa.

Hvernig get ég lækkað þýðingakostnað?

Nokkrar leiðir eru til að lækka kostnað við þýðingar. Sú sem skilar mestum árangri til lengri tíma er að nota þýðingaminni. Þannig geta fyrirtæki nýtt eldra efni í stað þess að þýða það frá grunni. Aðrar leiðir eru m.a. að stytta frumtexta, þar sem viðskiptavinir greiða vanalega fyrir hvert orð, og að vinna með skjöl á meðfærilegum skráarsniðum á borð við Microsoft Word. Það getur sparað kostnað að senda frumskjal til þýðingar í stað t.d. PDF-skjala. Þegar þýða á viðbætur við skjöl getur verið nokkuð kostnaðarsamt ef orðum er breytt í setningum sem þegar hafa verið þýddar og því ætti að láta slíkar setningar vera, nema nauðsyn kalli á annað.

Hvað eru þýðingaminni?

Þýðingaminni er hugbúnaður sem vistar þýðingu setninga (sem þá kallast strengir) og nýtir í síðari verkum. Þýðingaminni telja einnig endurtekningar og innra samræmi í texta sem lækkar heildarorðafjölda þýðingarinnar og þar með kostnað.

Hvað eru hugtakagrunnar?

Hugtakagrunnur er sérsniðið orðasafn (eða orðabók) á ákveðnu sviði eða fyrir tiltekna viðskiptavini. Í hugtakagrunnum er safnað saman lykilhugtökum á viðkomandi sviðum sem styttir tímann sem fer í þýðinguna þar sem þýðendur þurfa ekki að leita að þýðingu orða eða senda fyrirspurnir vegna þeirra.

Hver er helsti munurinn á sjálfstætt starfandi þýðendum og þýðingastofum?

Helsti munurinn á þýðingastofum og sjálfstætt starfandi þýðendum felst t.a.m. í þeim verk- og gæðaferlum sem stofur hafa komið sér upp, breidd þjónustunnar og viðbragðstíma. Þýðingastofur skipta þýðingu texta yfirleitt í þýðinguna sjálfa, samlestur tilbúinnar þýðingar við frumtexta og að lokum prófarkalestur. Þannig koma yfirleitt þrír aðilar að þýðingunni. Vegna eðlis starfseminnar gefa þýðingastofur starfsfólki sínu oft færi á að einbeita sér að því að öðlast þekkingu á ákveðnu sviði. Með þessu er að sjálfsögðu ekki átt við að sjálfstætt starfandi þýðendur geti ekki skilað af sér jafngóðum eða jafnvel betri texta en stofur.

Hvenær á ég að leita til sjálfstætt starfandi þýðenda og hvenær til þýðingastofa?

Engar reglur eru til um það hvenær skal leita til þýðingastofa og hvenær til sjálfstætt starfandi þýðenda. Oftast bjóða stofur upp á verkferla og gæðaprófun sem sjálfstætt starfandi þýðendur bjóða ekki upp á, þó svo að það sé ekki algilt. Þýðingastofur geta einnig unnið texta á styttri tíma þar sem þær hafa oftast möguleika á að nota nokkra þýðendur í einu, undir leiðsögn yfirþýðanda og/eða gæðastjóra, auk þess sem þær hafa oft meiri tækifæri til að fjárfesta í hugtakagrunnum og sértækum leiðbeiningum fyrir ákveðin svið. Margir sjálfstæðir þýðendur hafa þó sérhæft sig á ákveðnum sviðum og eru fullfærir um að bjóða upp á þau gæði sem þýðingastofur geta alla jafna boðið upp á.

Hvað þarf ég að vita áður en ég ákveð að senda texta í þýðingu?

Við val á þýðanda eða þýðingastofu er mikilvægt að spyrja að því hvort viðkomandi hefur reynslu af þýðingum á viðkomandi sviði. Ef textinn er t.a.m. sérhæfður fjármálatexti er afar ólíklegt að verkið verði unnið á fullnægjandi hátt ef viðkomandi hefur enga reynslu af þýðingu slíkra texta. Að sama skapi er mikilvægt að spyrja um notkun þýðingaminna, sérstaklega ef um er að ræða lengri texta og líklegt sé að þýða þurfi meira efni á sama sviði síðar.

Hvernig er kostnaður við þýðingu reiknaður?

Alla jafna er kostnaður reiknaður út frá orðum í frumtexta. Ef um flóknari skjöl er að ræða er hann þó stundum reiknaður út frá þeim tíma sem þýðingin tekur og þá gefinn upp áætlaður tími í upphafi. Þegar um er að ræða þýðingu sem byggir á eldra efni getur það oft sparað kostnað að nota þýðingaminni þar sem fyrri þýðing er þá sjálfkrafa sett inn þar sem texti hefur ekki breyst. Sé um endurtekið efni að ræða, líkt og handbækur sem fyrirséð er að taki reglulegum breytingum, getur það margborgað sig að búa til nýtt þýðingaminni og hugtakagrunna sem oft skilar sér í sparnaði alveg frá fyrsta verki.

Hvaða skráarsnið er hægt að senda í þýðingu?

Hægt er að þýða flestar skrár en þó er mjög mismunandi hversu mikill undirbúningur er nauðsynlegur fyrir hverja þeirra. Þannig þarf yfirleitt að umbreyta PDF-skjölum fyrir þýðingu – þar sem uppsetning riðlast – á meðan ekki þarf að breyta InDesign-skjölum, Word-skjölum eða Excel-skjölum.

Eru til einhverjir staðlar fyrir þýðingar?

Já. EN 15038 er gæðastaðall sem var sérstaklega skrifaður fyrir þá sem bjóða upp á þýðingar og sem ætlað er að tryggja samræmi í gæðum. Skopos fylgir þessum staðli.